Nýtt lýðveldi – nýtt stjórnkerfi

Ég rakst á eftirfarandi grein í Fréttablaðinu í dag eftir Bárð framhaldsskólakennara:

"Íslenzka flokkakerfið ræður ekki lengur við hlutverk sitt. Það er ólýðræðislegt, selur sig hæstbjóðanda og nýtur hvorki virðingar né velvildar þjóðarinnar. Einhver háværasta krafa búsáhaldabyltingarinnar var krafan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Nú þarf að herða róðurinn að því að stjórnlagaþing verði kjörið hið allra fyrsta. Hér fer á eftir tillaga að nýrri stjórnskipan.
  1. Forseti Íslands fer með framkvæmdavaldið. Hann skal kjörinn í beinum kosningum og telst réttkjörinn hafi hann meirihluta greiddra atkvæða. Kjósa skal milli þeirra sem flest atkvæði fá ef enginn hefur tilskilinn meirihluta úr fyrri umferð. Allir atkvæðisbærir Íslendingar hafa kjörgengi en skylt er að frambjóðandi hafi stuðning minnst 5% en mest 10% kjósenda. Forseti Íslands skipar ríkisstjórn og skulu ráðherrar vera fjórir.
  2. Alþingi fer með löggjafarvaldið og skal kjörið úr einu kjördæmi og skal kjósa 30 þingmenn sem bjóða sig fram sem einstaklingar en hafa meðmælendur með framboði sínu – 1% kjósenda sem lágmark og 2% sem hámark.
  3. Dómarar skulu skipaðir til starfa – 4 ár í senn – af forseta Íslands með samþykki Alþingis.
Dómstig verði þrjú. Með því að kjósa forsetann beint er verið að sameina núverandi embætti forsætisráðherra og forseta. Mér finnst óþarfi að fara út í nánari skýringar á þörfinni fyrir þetta, en bendi fólki á að horfa um öxl til síðustu ára. Eitt af því sem einkennt hefur stjórnmálin á Íslandi undanfarin ár er oflæti, ofdramb og sýndarmennska. Lítil þjóð þarf að sníða sér stjórnkerfi eftir þörfum sínum en ekki eftir þörfum flokkanna til þess að koma klíkuvinum í óhófslifnað á kostnað almennings. Fimm manna ríkisstjórn undir forystu forseta er fullfær um að stjórna þessari smáþjóð.Sama máli gegnir um Alþingi. Það er engin þörf fyrir 63 þingmenn. Má jafnvel færa prýðileg rök fyrir því að 10-15 þingmenn dygðu ágætlega. Hins vegar er talan 30 hugsuð þannig að flest sjónarmið komi mönnum að. Gera má ráð fyrir því að þingmenn greiddu miklu fremur atkvæði samkvæmt hugsjónum eða þeim viðhorfum sem þeir hafa áður kynnt kjósendum ef þeir væru ekki bundnir á klafa klíkuveldis flokkanna.

Setja þarf inn í stjórnarskrá ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda – t.d. 10% – geti krafizt atkvæðagreiðslu hvort heldur er í sveitarfélögum eða á landsvísu. Það er orðið miklu minna mál en áður var að hafa atkvæðagreiðslur. Þessum hugmyndum er hér varpað fram til umræðu."

Bárður G. Halldórsson (2010, 20. maí). Nýtt lýðveldi – nýtt stjórnkerfi.
Fréttablaðið, bls. 25.

Ég er sammála þessu í einu og öllu. Það vantar kannski aðeins meiri aðskilnað varðandi skipun dómara (t.d. framkvæmdavaldið útnefnir þá sem eru hæfir faglega og Alþingi kýs þar úr með leynilegri! kosningu þannig að dómarar viti ekki hver kaus þá).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband