Hver hefur lögsögu í geimnum?

Við lestur þessarar fréttar "Nasa rannsakar fyrsta "geimglæpinn"" þá fór ég að velta því fyrir mér hver hefur lögsögu í geimnum. Það getur ekki verið einfalt mál því margir hlutir eru ekki alltaf á sama stað í geimnum miðað við Jörð. Til dæmis ef miðað væri við að það væri "loftrými" hvers ríkis upp í ákveðna fjarlægð.

Alþjóðlega geimstöðin (ISS) er til dæmis á fleygiferð umhverfis Jörðina og því væri erfitt að vita í hvaða "loftrými" viðkomandi væri að brjóta lögin - og þá, hvaða lögum ætti að fara eftir? Þetta er nógu flókið á Jörðu niðri.

Mér dettur helst í hug að það væru samtök, sambærileg UN, sem myndi annast geimgæslu.


mbl.is NASA rannsakar fyrsta „geimglæpinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já þetta er einmitt mjög áhugaverð spurning lögfræðilega.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var árið 1967 gerður geimferðasáttmáli eða "Outer Space Treaty". Hann fjallar þó aðallega um það sem aðildarríkin hafa komið sér saman um að skuli vera bannað út í geimnum, svo sem að koma þar fyrir gereyðingarvopnum o.fl. en ekki um lögsögu einstakra ríkja.

Hafirðu séð kvikmyndina Marsbúinn með Matt Damon, manstu kannski eftir atriði þar sem hann gerðist "sjóræningi" (öllu heldur geimræningi) með því að ganga um borð í geimskip án leyfis áhafnar þess og taka yfir stjórn skipsins (til að komast frá plánetunni Mars). Þrátt fyrir að kvikmyndin sé skáldskapur er þetta þó alveg lögfræðilega rétt, því þar sem geimurinn, þ.m.t. plánetan Mars, eru utan lögsögu nokkurs þjóðríkis á jörðinni, gilda þar sömu reglur og á alþjóðlegum hafsvæðum þ.e. úthöfunum. Það er að segja meginreglur hafréttar sem og Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna frá 1994.

Samkvæmt meginreglum hafréttar gilda lög heimaríkis skips um borð í því skipi þegar það er á alþjóðlegu hafsvæði fyrir utan landhelgi þjóðríkja. Sama gildir um loftför og geimskip. Þannig giltu t.d. bandarísk lög um borð í Appollo geimförunum þegar þau flugu til tunglsins, en um leið og geimfararnir stigu frá borði og stóðu á yfirborði tungslins voru þeir komnir út fyrir lögsögu nokkurs ríkis.

Til að flækja þetta aðeins meira þýddi það þó ekki að geimfararnir á tunglinu væru ónæmir fyrir lögum, því samkvæmt meginreglum þjóðaréttar geta ríki refsað þegnum sínum fyrir lögbrot jafnvel þó þau séu framin utan lögsögu þess. Nýlegt dæmi er að Íslendingur var dæmdur fyrir brot gegn öðrum Íslendingi sem var framið í Austurríki. Ef Appollo geimfararnir hefðu því gert eitthvað glæpsamlegt af sér á tunglinu hefði verið hægt að handtaka þá við heimkomuna og rétta yfir þeim samkvæmt bandarískum lögum.

Málið flækist svo enn meira þegar kemur að Alþjóðlegu geimstöðinni, því hún er ekki smíðuð í neinu landi heldur úti í geimnum og ekki af einu ríki heldur mörgum í samvinnu. Til þess að forðast lögsöguvanda gerðu þessi ríki því með sér samning þar sem þau skipta með sér lögsögu um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, þannig að hvert þeirra ríkja fyrir sig hefur lögsögu yfir þeim hluta stöðvarinnar sem það er skráð heimaríki fyrir. Auk þess hafa þau lögsögu yfir sínum eigin ríkisborgurum um borð í geimstöðinni sbr. fyrrnefnda meginreglu um að refsilögsaga yfir eigin þegnum nái út fyrir yfirráðasvæði ríkisins.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaðan sú í þessu tiltekna máli að Bandaríkin hafa augljóslega lögsögu í málinu. Það helgast af því að í fyrsta lagi er um að ræða bandarískan geimfara, í öðru lagi á brotið að hafa verið framið með notkun bandarísks búnaðar um borð í geimstöðinni og í þriðja lagi á það að hafa beinst gegn öðrum bandarískunm ríkisborgara staðsettum innan bandarískrar lögsögu á jörðu niðri.

Svo er það tímanna tákn að fyrsti meinti "geimglæpurinn" skuli vera brot gegn bankaleynd!

Guðmundur Ásgeirsson, 24.8.2019 kl. 14:40

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta vissi ég ekki. Takk fyrir gott og fróðlegt innlegg.

Sumarliði Einar Daðason, 24.8.2019 kl. 18:13

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekkert að þakka.

Við þetta má bæta einum athyglisverðum punkti, sem er sá að þar sem lögsaga í geimstöðinni skiptist milli einstakra hluta hennar, eru óhjákvæmilega lögsögumörk þar sem þeir hlutar tengjast saman. Þar sem þetta er úti í geimnum eru "landamæri" kannski ekki rétta orðið yfir þessi mörk en lögformleg þýðing þeirra er sú sama þ.e. lína sem skiptir lögsögu milli þeirra ríkja sem liggja sitthvoru megin við þá línu. Þar sem mörg aðildarríkja geimstöðvarinnar eiga hvergi sameiginleg landamæri á jörðu niðri, er geimstöðin eini staðurinn í veröldinni þar sem lögsögur viðkomandi ríkja snertast.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.8.2019 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband