2.9.2013 | 12:50
Ríkislögreglustjóri skipi undirmenn sína
Ég rakst á greinina "Ríkislögreglustjóri skipi undirmenn sína" í Viðskiptablaðinu (http://www.vb.is/frettir/95362/) sem fjallar um það að Noregur hefur ákveðið að láta ríkislögreglustjóra sjá um að skipa lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra sína. Landssamband norskra lögreglumanna hefur kallað eftir þessari breytingu um áratugaskeið.
Hér á Íslandi er það Innanríkisráðherra (áður Dómsmálaráðherra) sem skipar í þessi störf. Innanríkisráðherra er auðvita pólitískt embætti og þar getur endað hver sem er, sem á annað borð getur boðið sig fram til Alþingis.
Þar fyrir utan eru íslenskir stjórnmálamenn ekki þekktir fyrir að taka ábyrgð á einu eða neinu. Ekki einu sinni ráðherrar.
Þess vegna getur komið upp sú staða að siðlaus, ábyrgðarlaus og reynslulaus ráðherra skipi í starf sem krefst mikillar ábyrgðar, þekkingar og reynslu. Hingað til, að ég held, höfum við sloppið við að lenda í þessari stöðu með ráðningu á lögreglustjórum.
En hvort ætli sé betra?
Að láta ábyrgðalausa stjórnmálamenn ákveða hverjir verða lögreglustjórar í landinu eða ríkislögreglustjóra sem þarf að standa og falla með starfi sínu?
Hér á Íslandi þarftu eiginlega bara að vera í "rétta" flokknum til þess að verða lögreglustjóri eða aðstoðarlögreglustjóri. Þess vegna eiga sumir mjög góðir lögreglumenn aldrei séns á því að vinna sig upp í starfi.
Það getur oft verið gott að fá "nýtt blóð" í annars íhaldssöm störf. Til að mynda finnst mér vel hafa tekist með Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Honum, ásamt starfsfólkinu sínu, hefur tekist vel að tengja saman borgara og lögreglu - sérstaklega samvinnu þar á milli.
Starf lögreglumannsins er nefnilega ekki alltaf dans á rósum. Lögreglan þarf oft að sinna dekkstu hliðum samfélagsins, sem flestir sjá bara í bíómyndum eða lesa um í bókum, sem og að sinna öllum slysaútköllum. Svo auðvita að sinna öðrum embættisskyldum eins og að brosa við hátíðlegar athafnir, aðstoða fólk og dýr, ganga erinda sýslumanna, fræða börn um umferðina og fleira í þeim dúr. Með alla þessa flóru er mjög auðvelt að brenna upp í starfi og verða beiskur, þrátt fyrir að sumt bætir annað upp.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.