Verðtryggingabull og okurvextir

Það rýrnar allt í lífinu. Við eldumst öll og rýrnum. Höfum ekki sama þróttinn um sextugt eins og við höfðum um tvítugt. Dýr og plöntur gera það líka á þeirra lífskeiði. Að lokum líkur því með dauða. Það eru helst málmar sem viðhalda verðmæti sínum með aldrinum.

Ekkert rýrnar, jafnvel ekki ær.

Þetta vita margir en ekki allir gera sér grein fyrir þessu.

Það er vonlaust að fara með ker fullt af fiski í Bónus til þess að fá mjólk, ost, brauð og lambalæri svo eitthvað sé nefnt. Upprunalegur tilgangur peninga er að auðvelda viðskipti. Gull og önnur verðmæti voru notuð til þess að geyma og sýsla með verðmæti. Núna eru peningar ávísun á verðmæti sem einhver annar getur borgað, sem hefur fengið verðmæti frá þér. Þetta er upprunalegur tilgangur peninga.

Svo datt mönnum í hug að gera peninga að vöru og það væri hægt að hagnast á því. Það var byrjað á því að lána peninga. Menn bjuggu til vexti til þess að hagnast og viðhalda verðmæti peninga sinna. Það var snjöll aðferð. Það var hægt að viðhalda „verðlausum“ peningum við upphaflegt verðmæti sitt (ef vel gengur) og jafnvel að fá smá bónus, sem oft voru notaðir til þess að brúa bilið ef einhver stóð ekki í skilum á geiðslum. Með vöxtum átti að öllu jöfnu að viðhalda verðmætum og koma í veg fyrir rýrnun.

Hér á Íslandi var ekki nóg að eiga pening og fá vexti af þeim. Þennslan var slík að peningar rýrnuðu með miklum hraða. Því meiri peningar sem voru í umferð .Þeim mun meira lækkaði verðmæti þeirra. Það var orðið nauðsynlegt fyrir þá sem eiga peninga að koma þeim í umferð strax og fá ávöxtun. Þeir sem raunverulega voru að búa til verðmæti voru fljótir að finna lyktina og hækkuðu bara verðið í þá átt sem markaðurinn þoldi. Þetta kallast verðbólga.

Þeir sem voru ríkir af peningum fundu líka lyktina á því hvernig hægt væri að græða á peningum; að lána peninga á háum vöxtum þannig að þeir ávöxtuðu fé sitt mjög vel, langt umfram áhættu sem fylgir því að lána peninga.

Þetta var ekki nóg. Það þurfti að græða líka á peningum aukalega.

Upp var því tekin verðtrygging (sem upphaflega vextir áttu að dekka). Það var fundin upp einhver aðferð að reikna út hvað verðmæti rýrnuðu og bæta því við höfuðstólinn – sem upphaflega vextir áttu að dekka.

Það var ekki nóg, heldur voru vextir verðtryggðir líka.

Þarna komum við inná afleiðuviðskipti, sem verðtrygging er. Hér á Íslandi er verðtrygging byggð á huglægu mati. Það er fundið út hvað „meðalfjölskylda“ eyðir miklu í hitt og þetta. Til dæmis matarinnkaup, fatnað, flugferðir, bílakaup, leiguverð íbúða og svo framvegis.

Eftir því sem meira er neytt því hærri verður verðbólgan. Því hærri sem verðbólgan er því hærri verður verðtrygging og vextir líka. Sem sagt, þeir sem eiga peninga til að lána öðrum eru stöðugt að græða langt umfram því sem vextir áttu að dekka. Þeir sem skulda tapa mun meira en þeir eiga skilið.

Afleiðuviðskipti, sem verðtrygging er, er ekkert annað en spákaupsmennska sem aðeins sérmenntaðir einstaklingar eiga að fást við, eftir langa menntun. Hér á Íslandi er þessum afleiðuviðskiptum varpað á þjóðina sem margir hafa varla háskólamenntun til þess að gera sér grein fyrir hvað þeir eru að hlekkja sig við í skuldafangelsi. Þegar fólk tekur verðtryggt lán, þá reiknast upphæðin langt í framtíðina með stjarnfræðilegum upphæðum, sem fólk tekur trúanlega að það verði komið með stjarnfræðilega há laun á sama tíma. Sú er raunin ekki.

Það þarf ekki nema íslenskt efnahagshrun, alvarlegan jarðskjálfta, eldgos, stríð eða önnur áföll, þá hækka lánin strax. Sem sagt lánveitandi er tryggður bak og fyrir, en lántakandi er hjálplaus og án allra varna.

Verðtrygging er bull og böl. Þetta er eitthvað sem þarf að afnema sem fyrst. Láta markaðinn stjórnast af eðlilegum vöxtum. Það er mikilvægt að það sé hægt að hafa neikvæða vexti af og til, til þess að auka hagvöxt. Það er ekki hægt með verðtryggingabulli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Góður pistill.

Verðtrygging er ekki aðeins óæskileg heldur beinlínis skaðleg hagkerfinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2019 kl. 16:49

2 identicon

Sæll

Svona skrifa heimalningar sem telja verðtryggingu séríslenskt fyrirbrigði. Vissulega eru verðtrygging ekki almennt á lánum til almennings, en mjög svo á leigusamningum um alla Evrópu (nema helst Bretlandi). En uppsagnarákvæði lána og breytilegir vextir eru bara önnur leið að sama marki og síst betri fyrir lántakendur.

Mikið er orðið leiðinlegt hversu mikill grátkór tjáir sig á Íslandi. ég sé að forsöngvarinn er mættur til að taka undir.

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 27.7.2019 kl. 11:22

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góð grein, ætti að vera skyldulesning í Hagfræðideildum Háskólanna.....

Jóhann Elíasson, 27.7.2019 kl. 13:29

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einar S. Hálfdánarson.

Verðtrygging á útlánum bankakerfisins til neytenda er séríslenskt fyrirbrigði. Hér er ekki verið að tala um leigusamninga og ekki heldur "uppsagnarákvæði" lána (hvað svo sem það þýðir) eða breytilega vexti. Vissirðu kannski ekki að mörg verðtryggð lán eru einmitt með breytilegum vöxtum? Hvaða grátkór ertu svo að tala um?

Mikið er alltaf leiðinlegt að sjá fólk blanda sér í umræðu um þetta málefni með einhverjum hálfkveðnum vísum og óljósum meiningum um manninn frekar en málefnið. Hver er eiginlega tilgangurinn með athugasemd þinni? Ert þú aðdáandi verðtryggingar eða fylgjandi útbreiðslu hennar? Ef svo er þá væri heiðarlegra að segja það hreint út og færa einhver rök fyrir þeirri afstöðu, frekar en að reisa strámenn.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband